Héraðsskólinn verði menningarsetur

Upplit skorar á sveitarfélög uppsveita Árnessýslu að finna Héraðsskólanum á Laugarvatni hlutverk sem menningar- og fræðslusetur.

Áskorunin var samþykkt á haustfundi Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, á dögunum. Þar lagði Guðmundur Guðmundsson, frá Efri-Brú í Grímsnesi, fram áskorun þar sem eindregnum tilmælum var beint til sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, og annarra sveitarstjórna í uppsveitum Árnessýslu, að þær finni Héraðsskólanum hlutverk sem menningar- og fræðsluhúsnæði, sem hæfir sögu hans og fyrri starfsemi.

Ennfremur lýsti fundurinn yfir ánægju sinni með yfirlýst áform sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um byggingu menningarseturs að Borg.

Tillagan var samþykkt samhljóða.