Héraðsdómur Suðurlands stofnun ársins 2016 hjá SFR

Héraðsdómur Suðurlands er stofnun ársins 2016 í flokki stofnana með færri en 20 starfsmenn. Er þetta þriðja árið í röð sem Héraðsdómur Suðurlands fær þessi verðlaun.

Félagsmenn SFR og aðrir ríkisstarfsmenn voru spurðir um starfsskilyrði þeirra og líðan á vinnustað. Þeir þættir sem voru mældir í könnuninni eru ánægja og stolt, starfsandi, trúverðugleiki stjórnenda, launakjör, sjálfstæði í starfi, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, ímynd stofnunar og nú í fyrsta sinn jafnrétti. Í samsetningu heildareinkunnar er vægi þáttanna mismunandi.

Í flokki stofnana með færri en 20 starfsmenn var heildarmeðaleinkunnin 4,187. Héraðsdómur Suðurlands fékk einkunnina 4,670. Svarhlutfall starfsmanna hjá embættinu var 80-100%.

Þess má geta að Héraðsdómur Suðurlands var jafnframt í 1. sæti yfir allar ríkisstofnanir en val á Stofnun ársins er byggt á svörum tæplega 8.000 starfsmanna hjá ríki og sjálfseignarstofnunum sem starfa hjá 142 stofnunum.