„Hér er einhver sem veit eitthvað“

Óli Haukur og Kristín reka gæludýraverslunina Dýrakofann við Eyrarveg 23 á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Við Eyraveg 23 á Selfossi stendur gæludýraverslunin Dýrakofinn. Verslunin hefur fengið frábærar viðtökur síðan hún opnaði í ársbyrjun 2024 en eigendurnir eru annálaðir fyrir góða þjónustu og sín góðu ráð, sérstaklega þegar kemur að hundauppeldi.

„Ég var að reyna að finna mér einhverja útgönguleið úr túristabransanum og mig langaði ekki að fara að vinna einhvers staðar nema fyrir sjálfan mig. Kristín ætlaði upphaflega ekkert að koma nálægt þessu. Við áttum hlut í dýralæknastofu í Reykjavík og Kristín var að vinna þar, þannig að þetta var bara svona eitthvað að gera fyrir mig,“ segir Óli Haukur Valtýsson sem rekur verslunina ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Sigmarsdóttur.

Stukku á tækifærið
Hjónunum stóð óvænt til boða bilið við Eyraveg 23 þar sem gæludýraverslun hafði áður verið til húsa. „Við stukkum bara á það. Það liðu ekki nema þrír mánuðir frá því að sú verslun lokaði og þar til við opnuðum. Það eru auðvitað hæg heimatökin þar sem Kristín er náttúrulega sérfræðingur í þessu og ég var það ekki, þó að ég sé kannski að færast nær því núna,“ segir Óli.

Óli og Kristín seldu síðar sinn hlut í dýralæknastofunni og vinna nú bæði í Dýrakofanum. Óli rekur einnig fyrirtækið Iceland En Route, þar sem hann fer með erlenda ferðamenn í ljósmyndaferðir. Óli fer enn í ljósmyndaferðir og hefur ekki hug á að hætta því en honum langaði að vera meira heima með fjölskyldunni í staðinn fyrir að vera alltaf í burtu. Núna fer hann í nokkra vel valda túra á ári.

Þakklát fyrir góðar viðtökur
Strax frá upphafi hefur Dýrakofanum verið ákaflega vel tekið. „Viðtökurnar hafa verið svakalega góðar. Ég átti einhvern veginn von á því að fyrstu mánuðirnir yrðu magrari en svo var ekki. Þetta var allt minna í upphafi og við pössuðum okkur að taka ekki lán fyrir neinu heldur gerðum meira eftir því sem það var meira til. Þetta er búið að vera vaxandi hjá okkur jafnt og þétt og alltaf búið að vera gott. Við erum þakklát fyrir viðtökurnar og höfum reynt að vera svona sérfræðingar eða geta veitt fólki alvöru ráðgjöf, sem er rosalega mikið byggt á þekkingu Kristínar. Og við höfum líka lagt áherslu á að fólk sem hefur unnið hjá okkur hafi einhverja þekkingu og geti svarað spurningum viðskiptavina,“ segir Óli.

Dýrakofinn byggir á hundum og köttum, með meiri áherslu á hunda en sjálf eiga hjónin tvo doberman hunda og eina kisu.

„Við erum með það helsta fyrir nagdýr og fugla. Við erum með mat og hey fyrir þessi dýr og undirburð, en rétt svo mat fyrir fiska. En vegna þess að við getum ekki veitt mikla þjónustu þegar kemur að þessum dýrum þá erum við með þetta í lágmarki,“ segir Kristín og Óli bætir við; „Við ráðleggjum helst engum varðandi þessi dýr því að við erum ekki þar. Við erum ekki sérfræðingar, þetta eru viðkvæm dýr og vondar ráðleggingar geta þýtt að einn morguninn fljóta allir fiskarnir. Það er ekki það sem við viljum.“

Frá opnun hefur Dýrakofinn fengið afar góðar viðtökur. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Samfélagsleg skylda að gefa fólki ráð
Kristín er þekkt fyrir sín góðu ráð þegar kemur að hvolpauppeldi og hefur hún hjálpað ótal hundaeigendum með uppeldið á sínum hundi. Aðspurð hvort henni finnst sjálfsagt að veita fólk ókeypis ráðgjöf sem kemur til þeirra í Dýrakofann segir hún að það hafi aldrei komið niður á henni að gefa góð ráð.

„Þetta er bara partur af því að veita góða þjónustu. Þegar maður heyrir að það er eitthvað að hjá fólki þá finnst mér að mér beri samfélagsleg skylda til þess að gefa fólki ráð. Það kemur kannski líka úr bakgrunninum, þegar maður er búinn að vera vinna við að þjálfa leitarhunda fyrir björgunarsveitir og svoleiðis þá er maður kannski líka bara þannig þenkjandi manneskja. Þegar maður er hvort sem er búinn að vera að gefa tímann sinn í öll þessi ár þá hættir maður því ekkert einn daginn,“ segir Kristín.

Hefur þjálfað leitarhunda fyrir björgunarsveitir og tollgæsluna
Áhugi Kristínar á hundaþjálfun hófst þegar hún gekk í björgunarsveitirnar. „Ég var 16 og 17 ára þegar snjóflóðin féllu á Súðavík og á Flateyri. Þegar ég var 17 ára gömul þá sá ég heimildarmynd sem gerð var um þátt leitarhunda í þessum flóðum og hvernig þjálfun á slíkum hundum færi fram. Við pabbi sátum einmitt upp á Flúðum og horfðum á þessa mynd saman og ég leit á pabba og sagði: Ég ætla að gera þetta.“

„Rétt rúmlega tvítug fæ ég mér svo minn fyrsta hund og fer á æfingu, þegar ég er búin að klára menntaskólann. Ég er búin að þrífast í þessum heimi svolítið síðan. Þannig að þetta byrjar með því og ég verð svo leiðbeinandi hjá þeim. Ég er fyrsta konan á Íslandi til að verða leiðbeinandi á vegum björgunarsveitanna í þessum flokki og sem betur fer hafa margar konur komið síðan. Þar byrjar boltinn að rúlla,“ segir Kristín en þess má geta að hún hefur einnig unnið hjá tollgæslunni og þjálfað leitarhunda þar.“

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Mikilvægt að fólk gefi sér tíma með hundinum sínum
Hvolpanámskeiðin hjá Dýrakofanum hafa verið sérlega vinsæl og koma margir langt að til að sækja námskeiðið með sínum hvolpi.

„Þessi námskeið hafa gengið mjög vel. Það er mjög mikið af hundum á Selfossi og það er þannig þegar maður er með hvolp að þó að maður hafi átt hund áður þá þarf hundurinn að læra að hlýða innan um aðra hunda, þannig að það er rosalega mikilvægt að fólki gefi sér þennan tíma með hundinum sínum.“

„Svo er það líka bara þannig að maður gleymir öllu þessu erfiða. Þetta er svona svipað því og að eiga börn, maður er búinn að gleyma öllu þessu erfiðasta þar til maður þarf að glíma við það aftur. Þá getur verið gott að hafa stuðning frá einhverjum, geta spurt og oft er það líka þannig að fólk í svona á hópi, eins og á námskeiði, það er ekki bara að leita eftir þekkingu frá mér, það er líka að hjálpa hvert öðru. Reynslusögur annarra hafa rosa mikið að segja, við lærum mjög mikið af því,“ segir Kristín.

Óli skýtur inn í að konan hans sé heldur hógvær. „Hún er einn reynslumesti og besti hundaþjálfri landsins og fólk kemur úr Reykjavík hingað til þess að fara til hennar á námskeið frekar en að fara eitthvað annað. Þannig að það sé nú sagt, því að ég veit að hún gerir það ekki.“

Í Dýrakofanum eru bæði hægt að fá góðar vörur og góð ráð. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Vildu bjóða upp allt það besta á einum stað
Í Dýrakofanum fást nokkrar tegundir af hágæða gæludýrafóðri og segir Kristín að það hafi verið markmið þeirra að hafa allt það besta á sama stað.

„Þetta eru ekki bara vörur sem við flytjum inn heldur vörur sem við kaupum frá birgjum í Reykjavík. Við tökum gæðavörur og setjum þær saman undir eitt þak og það er svolítið Dýrakofinn. Þú finnur gæðavörur hérna, allar undir sama þaki og meira að segja ef þú ferð í Reykjavík þá finnur þú ekki endilega samspil af þessum merkjum undir sama þaki. Þannig að það var svolítið konseptið hjá okkur, draga út allt það besta sem er verið að gera í gæludýrafóðri og taka það inn í okkar búð. Það er líka partur af því að það gengur vel og við finnum líka mikla traffík úr bænum á sumrin frá fólki sem er búið að bíða eftir að koma til okkar.“

Óli segir að þau leggi mikla áherslu á að fólki komi ekki að tómum kofanum þegar það kemur í Dýrakofann og vantar ráðleggingar. „Fólk getur öllu jöfnu treyst því að hér er einhver sem veit eitthvað. Og ef hann veit það ekki þá lýgur hann ekki bara einhverju heldur kemst hann að því áður en hann ráðleggur fólki. Við viljum ekki senda fólk með einhverja vitleysu úr búðinni. Þannig að fólk getur komið hingað og fengið sérfræðiþjónustu og það er í sjálfu sér ástæðan fyrir því að fólk hefur verið að treysta okkur,“ segir Óli að lokum.

Fyrri greinTími til kominn
Næsta greinÚtgáfuteiti: Hermann Árnason ríður í strauminn