Heppnasti Íslendingurinn er Sunnlendingur

Sunnlendingur einn skráði sig í sögubækurnar sem einn heppnasti Íslendingur síðari tíma þegar hann reyndist vera einn með allar tölurnar réttar í Lottóinu – í annað skiptið á rúmum þremur árum!

Í þetta skipti færðu heilladísirnar þessum lukkulega spilara rúmar 10 skattfrjálsar milljónir króna á miða sem keyptur var á lotto.is. Maðurinn segist hafa valið sömu tölur um skeið eftir að hafa fyllst sérstakri tilfinningu þegar hann fékk þær í sjálfvali á sínum tíma. Það hugboð skilaði sínu svo sannarlega um síðustu helgi og greinilegt að hjá sumu fólki ríður heppnin ekki við einteyming, að því er segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

„Við sjáumst svo aftur eftir þrjú ár,“ sagði sá heppni og brosti þegar hann kvaddi höfuðstöðvar Íslenskrar getspár eftir að hafa fengið vinninginn staðfestan í vikunni.

Fyrri greinSpenna og hasar í fimmta lagi Moskvít
Næsta greinSextán í einangrun á Suðurlandi