Heppilegra að sækja heita vatnið í hreppana

„Það er gífurlega dýrt að bora eftir heitu vatni og árangur óviss,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Byggðaráð Rangárþings eystra samþykkti nýlega að kanna kosti þess að leita eftir heitu vatni í sveitarfélaginu. „Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, mælir þess vegna með því að reynt sé að tengjast heitavatns­kerfinu í uppsveitum Árnessýslu frekar en að bora í Rangárþingi,“ segir Ísólfur Gylfi.

Margir íbúar Rangárþings nota rafmagnskyndingu við upphitun húsakosts síns og því er mikið hagsmunamál að kanna hvort nýtanlegt heitt vatn finnist á svæðinu.

Ísólfur Gylfi ræddi við jarðfræðingana Kristján Sæmundsson og Hauk Jóhannesson eftir að byggðaráð Rangárþings eystra samþykkti tillögu Elvars Eyvindssonar og Kristínar Þórðardóttur um að kanna möguleika jarðhitaleitar. Leiddu viðræðurnar í ljós að eini staðurinn þar sem hugsanlega er fýsilegt að bora eftir heitu vatni er Kirkjulækjarhverfið í Fljótshlíð. Þar er nægjanlega þéttbýlt og ferðaþjónusta er í nágrenninu.

Ísólfur Gylfi nefnir sem dæmi um kostnað við að bora eftir heitu vatni og áhættuna sem því er samfara að þegar hann var sveitarstjóri í Hrunamannahreppi þá kostaði tæplega 50 milljónir að bora á jörðinni Kópsvatni þar í sveit, en um svipað leiti hafi verið borað fyrir 100 milljónir á Ísafirði og sú jarðhitaleit skilaði engum árangri. Hins vegar sé Kópsvatnsholan ónýtt en gefur gríðarlega orku.

„Við erum ekki að kasta frá okkur möguleikanum á jarðhitaleit, og þetta eru bráðabirgðaniðurstöður. Líklega höldum við opinn fund í Fljótshlíð innan tíðar með jarðfræðingum til að fræða þá sem hafa áhuga,“ segir Ísólfur Gylfi.