Helmingi minna plantað í Hekluskóga

Í ár verður plantað u.þ.b. 265 þúsund trjáplöntum í Hekluskógaverkefninu en það er um helmingi minna en í fyrra. Framlag ríkisins lækkaði um helming í fyrra.

Í vor verða gróðursettar rúmlega 210 þúsund plöntur og í haust 55 þúsund. Þetta er um helmingi minna en í fyrra, en ríkisframlög til Hekluskóga lækkuðu um helming í fyrra og um 8% frá 2009-2010.

Hreinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Hekluskóga, segir að þrátt fyrir þessa lækkun verði verkefninu haldið áfram af fullum krafti og í ár verði meiri áhersla lögð á áburðargjöf á eldri gróðursetningar.

Þátttakendur í verkefninu eru nú orðnir 136 og hófst afhending trjáplantna til þeirra í byrjun maí. Þá voru frystar plöntur af birki og reyniviði afhentar. Fyrst í stað verða gróðursettar plöntur sem geymdar voru í frysti og þegar líður á maí verða plöntur afhentar hefðbundnar bakkaplöntur.

Fyrri greinÞykkt öskulag á Skógaheiði
Næsta greinMarkaður og kaffihús í Sunnulækjarskóla