Hellisheiði og Þrengsli opin – Nokkur útköll hjá björgunarsveitum

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

UPPFÆRT 20:30: Hellisheiði og Þrengsli eru opin og þar er hálka og skafrenningur. Vegagerðin reiknar með að Hellisheiðin lokist aftur í nótt.

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa fengið nokkur óveðursútköll í dag.

Í öllum tilvikum var um minniháttar foktjón að ræða en meðal annars komu tilkynningar frá Hveragerði og Stokkseyri og sinntu Hjálparsveit skáta í Hveragerði og Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka þeim útköllum.

Þá hafa björgunarsveitirnar sinnt lokunarpóstum en fjallvegir á Suðvesturhorninu hafa verið á óvissustigi síðan klukkan 13 í dag og reyndar var Lyngdalsheiði og umferð um Þingvelli og Mosfellsheiði lokað um miðjan dag.

Kl. 17:50 í dag var svo Hellisheiði og Þrengslum lokað.

Nú á sjötta tímanum hefur borið á rafmagnsflökti í kringum Selfoss en Selfosslína 1 sló út á milli Ljósafoss og Selfoss kl. 17:40. Línan var spennusett aftur kl. 17:51 en sló aftur út kl. 17:58. Verið er að skoða línuna en hvergi varð hins vegar rafmagnslaust við útleysinguna.

Fyrri greinÓvissustig á fjallvegum – Lyngdalsheiði lokuð
Næsta greinStórt útkall á Kili