
Mikilvægum áfanga í átt að minnkandi losun á gróðurhúsalofttegundum var fagnað í síðustu viku þegar Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, opnaði með formlegum hætti lofthreinsistöðina Steingerði við jarðvarmavirkjun Orku náttúrunnar á Hellisheiði.
Hönnun og bygging Steingerðar er lykilþáttur í svokölluðu Silfurberg verkefni, sem er nýsköpunarverkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins. Stöðin, ásamt núverandi lofthreinsistöð, verður með getu til þess að fanga nær alla losun á koltvísýring og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun. Opnun Steingerðar markar þau tímamót að Hellisheiðarvirkjun verður ein af fyrstu jarðvarmavirkjunum heims til að verða nær kolefnishlutlaus.
„Silfurberg er frábært dæmi um hverju er hægt að áorka þegar vísindi, atvinnulíf og stjórnvöld vinna saman,” sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra. „Þetta er stór dagur fyrir loftslagstækni á Íslandi. Föngun og binding kolefnis í jarðlög er á meðal þeirra aðgerða sem brýnt er að ráðast í til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þetta hefur ítrekað verið viðurkennt af alþjóðlega vísindasamfélaginu, meðal annars af milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Mikilvæg skref hafa verið stigin af íslenskum frumkvöðlum í þessum efnum og brýnt að starfsemin hvíli á skýrum reglum til framtíðar.“
Tímamótaverkefni í loftslagsmálum
Silfurberg verkefnið sem leitt er af Carbfix og Orku náttúrunnar, dótturfélögum Orkuveitunnar, miðar að því að sýna fram á föngun koldíoxíðs og varanlega geymslu þess í bergi á stærri skala en áður. Verkefnið nýtur 3,87 milljóna Evra styrks úr Nýsköpunarsjóði ESB sem gerir Carbfix kleift að skala upp tækni sína. Með Steingerði verður geta til að fanga um 30.000 tonn af CO2 árlega, sem verður svo breytt örugglega og varanlega í stein með Carbfix tækninni.
Náttúruleg og sannreynd lausn
Carbfix hefur verið að þróa tækni sína frá 2007 á Hellisheiði og hefur þróað byltingarkennda lausn sem breytir koldíoxíði í stein innan tveggja ára. Tæknin líkir eftir og hraðar náttúrulegum ferlum sem breyta koltvísýring í stein og geyma hann á öruggan og varanlegan hátt í berginu.
Gert er ráð fyrir að Silfurberg verkefnið eitt og sér muni skila 10% af skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum fyrir árið 2030 innan orku- og iðnaðargeira sem falla ekki undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
