Hellisheiði, Sandskeið og Þrengsli lokuð

Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli eru lokuð en búið er að opna Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss. Stórhríð er nánast á öllu Suðurlandi og gríðarlega blint og eru björgunarsveitir á ferðinni víða til að aðstoða ökumenn.

Í flestum landshlutum er vonskuveður og vegir meira og minna ófærir. Stórhríð er einnig með suðausturströndinni.

Á níunda tímanum í kvöld sagði Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar, í samtali við sunnlenska.is að búið væri að boða björgunarsveitir úr Árborg, Þorlákshöfn, Hveragerði og Grímsnesi til aðstoðar við fasta bíla hér og þar um neðanverða sýsluna og í lokanir.

UPPFÆRT KL. 00:01: Nú er veðrið farið að ganga nokkuð niður á Suðurlandi, búið er að opna á milli Hveragerðis og Selfoss og verður Hellisheiðin opnuð um leið og hægt verður að moka hana. Veður hefur gengið töluvert niður undir Eyjafjöllum, en þjóðvegurinn austur frá Markarfljóti er þó ennþá lokaður og ófært er yfir Reynisfjall þar sem þar er enn töluverður vindur og nokkur snjór. Einnig er þungfært yfir Mýrdalssand og vegurinn lokaður. Hafist verður handa við að moka veginn með morgninum og mun hann þá opnast.

Í Öræfum hefur veðrið gengið nokkuð niður, en ennþá eru nokkuð sterkar hviður við Kvísker.

Lögreglan biður þá sem hafa hug á ferðalögum með morgninum að fylgjast með færð á síðu Vegagerðarinnar, www.vegagerdin.is og í síma 1777. Eins þurfa ferðaþjönustuaðilar að fylgjast með þessum vefum til að upplýsa erlenda ferðamenn.

– Svörun í þjónustusíma Vegagerðarinnar 1777 er lokið í kvöld en þjónustuverið opnar aftur kl. 6:30 í fyrramálið.

Fyrri greinFrestað í Fákaseli
Næsta greinSelfoss gaf eftir í lokin