Hellisheiði lokuð og vonskuveður um allt Suðurland

Hellisheiði hefur verið lokað vegna veðurs. Þá hefur Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni verið kölluð út á Lyngdalsheiði til að losa fasta bíla en Vegagerðin mun loka veginum yfir heiðina að því verki loknu.

Mikil umferð hefur verið yfir heiðina síðan í morgun, bæði einkabílar og rútur, þrátt fyrir afleitt veður og færð og slæma veðurspá.

Björgunarsveitin Víkverji í Vík er einnig í útkalli til þess að aðstoða erlenda ferðamenn sem sitja fastir í bíl á afleggjaranum að Reynishverfi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er vonskuveður á Suðurlandsvegi alveg frá Eyjafjöllum og austur á Kirkjubæjarklaustur. Mikill vindur er og þar sem verst er slær vindhæðin í 50 m/sek. Mikil hálka, glæra, er á veginum og hafa ökumenn verið að lenda í vandamálum.

Veðurstofa Íslands hefur varað við stormi víða um land í dag og fram á nótt. Einnig er búist við mikilli úrkomu SA-land síðdegis og hvössum vindhviðum við fjöll, einkum sunnan- og vestanlands.

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir fólk á að vera ekki á ferðinni þar sem veður er slæmt nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins á vel búnum bílum. Einnig er tilefni til að árétta að ætíð skal virða lokanir vega.

Því er ágætt að kanna með færð og veður ef menn ætla að fara akandi á þessum slóðum. Veðurhæðin á að ganga niður með kvöldinu sunnanlands.

UPPFÆRT KL. 15:52 Búið er að opna Suðurlandsveg milli Markarfljóts og Víkur vegna veðurs.

Fyrri greinSannfærandi sigur Þórsara
Næsta greinBílstjórinn slapp án meiðsla