Helgi segir D-listann beita brögðum – Rangt, segir Ásta

„Það er áhugavert að lesa þessi skrif Helga,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, um grein Helga Haraldssonar bæjarfulltrúa um þá ákvörðun bæjarstjórnar að taka rekstur Leigubústaða Árborgar út úr samstæðureikningi sveitarfélagsins.

Helgi segir að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi gert sveitarfélagið Árborg afturreka með þessa ákvörðun sína. Ekki sé heimilt að halda rekstrinum utan samstæðu, og að vegna þessa gjörnings D-listans hafi skuldahlutfallið lækkað.

Ásta segir þetta ekki rétt. „Nefndin hefur ekki tekið neina ákvörðun í málinu. Nefndin ritaði Sveitarfélaginu Árborg bréf á haustmánuðum þar sem óskað var upplýsinga varðandi þessa ráðstöfun. Fulltrúar sveitarfélagsins funduðu með nefndinni og hefur í framhaldi af því verið tekin sú ákvörðun af hálfu sveitarfélagsins að hafa frumkvæði að því að færa rekstur sjálfseignarstofnunarinnar inn í samstæðu sveitarfélagsins, fremur en að taka upp rökræður við nefndina um réttmæti þess að halda rekstrinum utan samstæðu, þrátt fyrir að það liggi fyrir að það sé með nokkuð mismunandi hætti hvernig ábyrgðarskuldbindingar eru afgreiddar í reikningum sveitarfélaga.

Nefndinni verður tilkynnt um þessa ákvörðun þegar fjárhagsáætlun hefur verið samþykkt og vænta má að málinu sé þar með lokið,“ segir Ásta.

Fyrri greinHelgi öflugur í góðum útisigri Selfoss
Næsta greinHrunamannahreppur tekur lán til framkvæmda