Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi, leiðir lista Framsóknar og óháðra í komandi sveitarstjórnarkosningum í Árborg. Þrír efstu frambjóðendurnir voru kynntir á vöfflukaffi í Framsóknarhúsinu í gær.
Tillaga stjórnar Framsóknarfélags Árborgar er að Helgi leiði listann. Í öðru sæti verði Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur, og í þriðja sæti verði Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri.
Framsóknarflokkurinn fékk 14,4% atkvæða í síðustu sveitarstjórnarkosningum og einn bæjarfulltrúa.
Undirbúningur framboðsins hefur staðið í nokkurn tíma og hafa m.a. verið haldnir opnir íbúafundir á Stokkseyri, Eyrarbakka, Selfossi og í Tjarnarbyggð. Þar hafa íbúar getað komið á framfæri upplýsingum um málefni sem brenna á þeim nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna.
Framundan eru opnir málefnafundir þar sem lögð verða drög að stefnuskrá framboðsins. Í tilkynningu frá framboðinueru íbúar í Árborg hvattir til að fjölmenna á fundina til að leggja drög að framsýnni framtíð Árborgar.
Stefnt er að því að fullskipaður listi Framsóknar og óháðra verði kynntur fyrir páska og lagður fyrir félagsfund til samþykktar strax eftir páska.