Helgi kosinn í stjórn UMFÍ

Ný stjórn UMFÍ. Ragnheiður er þriðja frá vinstri í efri röð og Helgi lengst til hægri. Sigurður Eyjólfur er annar frá vinstri í fremri röð. Ljósmynd/UMFÍ

Töluverðar breytingar urðu á stjórn Ungmennafélags Íslands í gær þegar sjö nýir fulltrúar komu inn í ellefu stjórnarsæti. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var sjálfkjörinn en hann gaf einn kost á sér.

Helgi Sigurður Haraldsson, formaður Umf. Selfoss og fulltrúi Héraðssambandsins Skarphéðins, er einn þeirra sem kemur nýr inn í aðalstjórnina.

Ragnheiður Högnadóttir, USVS, náði ekki endurkjöri í aðalstjórn félagsins en var kosin í varastjórn. Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, USVS, gaf sömuleiðis kost á sér í aðalstjórn en var kosinn í varastjórn og kemur þar nýr inn.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og athygli vakti þegar atkvæði voru ljós að þau Margrét Sif Hafsteinsdóttir, ÍBR og Birgir Már Bragason, ÍRB, voru jöfn. Þau drógu því spil til að skera úr um kjörið, þar sem Margrét dró ás, sem landaði henni sæti í stjórn UMFÍ. Birgir gaf því kost á sér í varastjórn og hlaut kosningu í hana.

Aðrir aðalstjórnarmenn eru Guðný Stefanía Stefánsdóttir, HSV, Halla Margrét Jónsdóttir, ÍA, Margrét Sif Hafsteinsdóttir, ÍBR, Skúli Bragi Geirdal, ÍBA og Sigurður Óskar Jónsson, USÚ. Í varastjórn situr, auk Ragnheiðar, Sigurðar og Birgis, Gunnar Þór Gestsson, UMSS.

Fyrri greinHinn annálaði „slæmi kafli“ gerði út um leikinn
Næsta greinFjölskyldutempó skapar gæðastundir