Helgi greiddi atkvæði gegn fjárhagsáætluninni

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2014 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku með 8 atkvæðum fulltrúa D-, S-, og V- lista en Helgi S. Haraldsson, fulltrúi B-listans greiddi atkvæði gegn áætluninni.

Helgi gerði grein fyrir atkvæði sínu á fundinum og sagði meðal annars að til að efna kosningaloforð sín lækki meirihlutinn fasteignaskattsprósentuna eitt árið enn og rökstyðji það með því að það sé gert til að minnka álögur á fjölskyldur og húsnæðiseigendur.

„Lækkun fasteignaskattsprósentu kemur sér kannski vel fyrir þá sem enn eiga fasteign, svo framarlega sem fasteignamat húsnæðis hafi staðið í stað á milli ára, en lækkunin er tekin til baka með öðrum gjöldum, s.s. hækkun á heitu vatni, áframhaldandi háum fráveituskatti og öðrum gjöldum sem leggjast á fasteignir. Þannig að þegar upp er staðið er spurning hvort um lækkun eða hækkun er að ræða á álögum á íbúa sveitarfélagsins,“ segir Helgi í bókun sinni.

Helgi segir metnaðinn í fjárhagsáætlun ársins 2014 ekki mikinn, þar sem gert sé ráð fyrir tapi á rekstri A hluta samstæðunnar upp á tæpar 100 milljónir króna. Þetta sé fimmta árið í röð þar sem rekstur sveitarfélagins sé rekinn með tapi og nýttir fjármunir úr öðrum sjóðum til að greiða tapið niður. Til dæmis sé sveitarfélagið orðið í stórri skuld við fráveitusjóð vegna þessa.

„Allt tal um rekstrarhagnað síðustu ára og framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2014, þar sem reksturinn skili hagnaði, er bara til að slá ryki í augun á fólki sem gerir sér ekki grein fyrir hvernig rekstur sveitarfélags er upp byggður. Sá hagnaður er tilkominn vegna B hluta fyrirtækja sem skila miklum rekstrarafgangi ár eftir ár, án þess að hann fari í þann eiginlega rekstur sem hann á að fara í, s.s fráveitu, vatnsveitu o.fl. Hann fer allur inn í sjóðsbækur A hlutans til að reka hann og samt á að reka hann með tapi á næsta ári,“ segir Helgi og bætir við að á meðan safni aðalsjóður skuldum hjá þessum B hluta fyrirtækjum. „Hundruð milljóna sem eiga að fara í framkvæmdir á þeirra vegum og ekki notast í neitt annað samkvæmt lögum, en hefur verið nýttur síðustu ár til að borga rekstrartap sveitarfélagsins af sínum daglegu verkefnum.“

Helgi segir tölurnar tala sínu máli og þar sem reka eigi daglegan rekstur sveitarfélagsins með tapi eitt árið enn, geti hann ekki samþykkt fjárhagsáætlunina eins og hún er lögð fram.

Fyrri greinJólatörn hjá landsliðunum
Næsta greinFluttu veikt barn til Reykjavíkur með aðstoð björgunarsveita