
Aðalfundur FKA – Suðurland var haldinn síðastliðinn þriðjudag á Hraunvöllum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar var ný stjórn kjörin og formaður hennar, Helga Jóhanna Úlfarsdóttir var endurkjörin til tveggja ára.
Með Helgu í stjórninni eru Íris Brá Svavarsdóttir gjaldkeri, Gunnhildur Valgeirsdóttir ritari og varamenn í stjórn eru Ingunn Jónsdóttir, Dagný Hulda Jóhannsdóttir og Helga Björg Þorgeirsdóttir.
„Skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár er gott yfirlit yfir metnaðarfullt og fjölbreytt starf félagsins, þar sem haldnar voru hraðkynningar, nýliðakvöld á Ölverki, jólarölt var haldið á Selfossi, spa kvöld í Skeiðalaug, fjallkonan virkjuð í tveggja daga ferð í Hólaskóg við Búrfell og viðburðurinn „Rómantík og vellíðan“ með Auði Ottesen svo dæmi séu tekin,“ segir Helga Jóhanna.

Suðurlandsdeild FKA er ein af fjölmörgu deildum Félags kvenna í atvinnulífinu. FKA Suðurland telur tæplega áttatíu konur á Suðurlandi sem taka ekki einungis þátt í öflugu starfi á svæðinu heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmargar nefndir, deildir og ráð halda úti öflugu starfi og fjölbreyttri dagskrá hjá FKA eins og hreyfiaflsviðburði, verkefni, fræðslu og annað fjör sem konur sækja af landinu öllu.

varaformaður og Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir formaður FKA. Ljósmynd/Aðsend
Mikil tilhlökkun að kortleggja starfsárið
„Það var góð mæting á aðalfundinn, sérstaklega var gaman að sjá formann og varaformann aðalstjórnar FKA, þær Ingibjörgu Salóme Sigurðardóttur og Guðlaugu Hrönn Jóhannsdóttur og framkvæmdastjóra félagsins Andreu Róbertsdóttur,“ segir Helga Jóhanna ennfremur.
Boðið var uppá veitingar og áttu félagskonur gæðastund saman og ræddu spennandi starfsár sem er fram undan og mikil tilhlökkun að kortleggja betur og kynna fyrir konum í deildinni. Konur á Suðurlandi eru hvattar til að skrá sig í Félag kvenna í atvinnulífinu og í FKA Suðurland.
