Heldur lakari árangur í dagskóla

Þeir 937 nemendur sem skráðir voru í dagskóla í Fjölbrautaskóla Suðurlands á nýliðinni haustönn töpuðu rúmlega 22% þeirra eininga sem lagt var upp með á önninni.

Einingar sem lagðar voru undir í upphafi voru 16.210 og undir lok annar höfðu nemendur staðist 12.630 einingar.

Til samanburðar má geta þess að haustið 2012 var þessi tala rúmlega 21% og haustið 2013 var hún rúmlega 20%. Námsárangur í dagskóla, samkvæmt þessum tölum er því heldur lakari en á síðustu haustönn.

Í annarannál sínum við brautskráningu á föstudaginn sagði Þórarinn Ingólfsson, aðstoðarskólameistari, að það sé áhyggjuefni að rúmelga 22% eininga tapist á önninni.

„Það virðist vera að það sé ansi snúið að fá þessa tölu til að fara vel niður fyrir 20 prósentin því aðeins einu sinni á síðustu tíu árum höfum við náð þeim árangri,“ sagði Þórarinn.

Fyrri greinHafsteinn blakmaður ársins
Næsta greinDagbók lögreglu: Fimm teknir ölvaðir undir stýri