Heklukot hlaut menntaverðlaunin

Leikskólinn Heklukot í Rangárþingi ytra hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2013 í síðustu viku, fyrir öflugt starf. Forseti Íslands afhenti verðlaunin á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands.

Á Heklukoti hefur m.a. hefur verið lögð mikil áhersla á samstarf við foreldra og aðra aðstandendur leikskólabarnanna.

Í ávarpi á fundinum þakkaði Þórunn Ósk Þórarinsdóttir, leikskólastjóri, sérstaklega starfsfólki Heklukots fyrir þessa viðurkenningu sem sé svo sannarlega hvatning til áframhaldandi þróunar í skólastarfinu.

„Við á Heklukoti erum svo þakklátar, stoltar og glaðar og það ber að þakka svo mörgum fyrir þennan heiður. Fyrst og fremst börnunum sem mæta til okkar dag eftir dag og gera vinnuna okkar svo innihaldsríka og skemmtilega. Einnig frábærri samvinnu við foreldra og allt nærsamfélagið á Hellu. Við finnum fyrir miklum meðbyr yfirvalda og annarra stofnanna í samfélaginu. Það er neflilega þannig að það þarf heilt þorp til að ala upp barn,“ sagði Þórunn Ósk meðal annars.

„Við munum halda áfram með þróunarverkefni okkar í tengslum breytingar á útileiksvæði Heklukots. Við ætlum að breyta útileiksvæðinu í náttúrulegt leiksvæði sem byggir á áskorunum, hvetur börn til leiks, rannsókna og sköpunar. Í þessu starfi hefur Sigdís Oddsdóttir kennari verið fremst í flokki jafningja og að öðrum ólöstuðum og vil ég þakka henni sérstaklega fyrir þann eldmóð og áhuga sem hún hefur sýnt þessu starfi og smitar bæði börn og starfsfólk til góðra verka,“ sagði Þórunn Ósk ennfremur.