Bæjarráð Árborgar hefur veitt Heklu hf. vilyrði fyrir atvinnulóð að Fossnesi 11-13 á Selfossi. Fyrirtækið ráðgerir að hefja framkvæmdir síðar á árinu.
Lóðin er við hlið Atlantsolíu og snýr beint að innkomunni inn á Selfoss að norðan. Gott samtal hefur verið milli sveitarfélagsins og forsvarsmanna Heklu hf. sem hefur sýnt mikinn áhuga á að byggja upp aukna starfsemi innan sveitarfélagsins.
„Það er ánægjulegt að öflug fyrirtæki líkt og bílaumboðið Hekla horfi til uppbyggingar í Árborg. Hér á svæðinu er rík hefð fyrir góðri verslun og þjónustu og mun uppbygging Heklu hf. efla enn frekar núverandi þjónustu fyrirtækisins og fjölga störfum á svæðinu,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri.
„Mörg fyrirtæki horfa til uppbyggingar á Suðurlandi enda margt jákvætt að gerast með bættum samgöngum, uppbyggingu inn- og útflutningshafnar auk fjölgunar íbúa, sem leita frekar í störf hérna megin heiðarinnar,“ bætir Bragi við.
Hekla áætlar að framkvæmdir hefjist í haust og á lóðinni verði bílasala ásamt þjónustutengdri starfsemi.

