„Heitum skattgreiðendum því að gera okkar besta“

Friðrik Erlingsson, rithöfundur og Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður, fengu tveggja milljóna króna styrk úr Menningarsjóði Suðurlands í gær vegna óperunnar „Ragnheiður“.

„Við höfum unnið að þessu verkefni í þrjú ár og stefnum að því að óperan verði tilbúin árið 2012. Þessi styrkur er glæsileg hvatning og ómetanlegur stuðningur fyrir okkur,“ sagði Friðrik þegar hann tók við styrknum.

„Ragnheiður“ segir sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti. Íslendingar þekkja sögu Ragnheiðar og Friðrik segir að hún snerti viðkvæman streng í brjósti þjóðarinnar.

„Forboðnar ástir eru alltaf frásagnarverðar. Það er vilji okkar og markmið að miðla þessari sögu til almennings svo að allir geti notið og lifað sig inn í hana – og við heitum skattgreiðendum því að gera okkar besta,“ sagði Friðrik.