Heitt vatn úr borholu olli skemmdum

Heitt vatn úr borholu Orkuveitu Reykjavíkur spýttist yfir hús og flæddi inn á lóðir við tvær götur í Hveragerði á þriðjudag.

Um er að ræða göturnar Klettahlíð og Laufskóga. Myndaðist 10 sm djúp tjörn á einni lóðinni. Ætla má að skemmdir hafi orðið af gróðri vegna þessa og um tryggingamál sé að ræða.

Borholan er í halla fyrir ofan Klettahlíðina og rann vatnið þaðan í hálfgerðum læk. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni var unnið að því að hreinsa og víkka út borholuna en háfur sem á að taka við vatninu hafði ekki undan og rann vatn framhjá drenlögn með fyrrgreindum afleiðingum.

Við það getur skapast hætta en unnið er að því að finna aðra leið til að víkka holuna.