Heitavatnslaust í Þorlákshöfn í næstu viku

Maður í sturtu. Myndin tengist efni fréttarinnar. Ljósmynd/Veitur

Á næstu dögum verður unnið að undirbúningi tengingar á nýrri stöðvardælu fyrir dælustöð hitaveitu á Bakka í Ölfusi. Því verður heitavatnslaust í Þorlákshöfn, mánudaginn 9. september á milli kl. 18:00 og 22:00.

Föstudaginn 13. september verður minna heitt vatn til skiptanna í bænum á milli kl. 13:00-20:00 og lokað verður alveg fyrir heita vatnið frá kl. 20:00 og fram til kl. 10:00 á laugardagsmorgun.

Afkastageta hitaveitu í Þorlákshöfn aukin
Í tilkynningu frá Veitum segir að þessar framkvæmdir séu liður í að auka afkastagetu hitaveitunnar í Ölfusi. Í þessum fasa verða lagnir frá borholu að stöðvarhúsi endurnýjaðar og tengingar fyrir nýja dælu, sem dælir vatni frá stöðvarhúsi til bæjarins, verða undirbúnar. Dælan sjálf er væntanleg síðar í haust.

Að auki verður ný gufuskilja tengd dælustöð og borholum. Nú þegar hafa Veitur endurnýjað hitaveitulögnina frá Bakka að Þorlákshöfn og sett dælu í aðra borholuna sem áður var í sjálfrennsli. Þegar þessari vinnu lýkur geta Veitur komið öllu því vatni, sem hægt er að afla með borholunum á Bakka, til bæjarins.

Farið sparlega með heita vatnið
Veðurspá gerir ráð fyrir mildu veðri eftir helgi en Veitur biðja fólk að fara sparlega með heita vatnið þessa daga; láta ekki renna í heita potta eða taka langar sturtur, loka gluggum og hafa dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að hleypa ekki hita úr húsum.

Starfsfólk Veitna vonast til að óþægindi vegna þessa verði sem minnst.

Fyrri greinGröfutækni með lægsta tilboðið í Björkurstykki
Næsta greinSýning fyrir alla sem kunna að meta kökur