
Sérlega hlýtt var víða um land í dag og hitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. Hæsti hiti dagsins mældist á Hjarðarlandi í Biskupstungum, þar sem hitinn fór í 29,5°C og er það nýtt staðarmet.
Víða um land fór hitinn yfir 26–27°C og dagshitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. Heitast var í uppsveitum Árnessýslu, hitinn mældist 29°C í Bræðratungu og á Þingvöllum, í Skálholti, á Kálfhóli mældist hitinn yfir 28°C, sem er óvenjulegt jafnvel að sumri og sýnir vel hversu mikil hlýindi voru í dag. Á Selfossi fór hitinn í 27,7°C sem er met á mæli Veðurstofunnar þar.
Það var líka hlýtt á hálendinu, þar var hæsti hitinn á Vatnsfelli í Ásahreppi, 24,8°C, á Hveravöllum fór hitinn í 24,2°C og í Veiðivötnum í 24,1°C.
Veðurhorfur fyrir morgundaginn: Áfram má búast við hægviðri eða hafgolu. Víða verður bjart eða léttskýjað, en síðdegis má reikna með stöku skúrum sunnanlands. Hiti verður á bilinu 17 til 28 stig, hlýjast norðaustanlands.
