Heita góðu samstarfi vegna uppbyggingar menningarsalarins

Fulltrúar eigenda sitja við borðið en fyrir aftan standa (f.v.) Sveinn Ægir Birgisson, nefndarmaður í eigna- og veitunefnd Árborgar, Kjartan Björnsson, fulltrúi í bygginganefnd og frístunda- og menningarnefnd Árborgar, Guðbjörg Jónsdóttir, formaður bygginganefndar og frístunda- og menningarnefndar Árborgar, Tómas Ellert Tómasson, fulltrúi í bygginganefnd og formaður eigna- og veitunefndar Árborgar og Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar. Ljósmynd/arborg.is

Eigendur hússins að Eyravegi 2 skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um samstarf við uppbyggingu menningarsals Suðurlands sem er ófrágenginn í fasteigninni.

Eigendur hússins eru sammála um að vera í góðu samstarfi vegna uppbyggingar sveitarfélagsins á salnum. Í því felst meðal annars að þau atriði framkvæmdarinnar sem gætu haft áhrif eða fallið undir aðra starfsemi í húsnu verði tekin fyrir af eigendum, svo og skipting kostnaðar sem er sameiginlegur.

Það ríkti bjartsýni í hópnum um framhald verkefnisins en Sveitarfélagið Árborg hefur stofnað byggingarnefnd um fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem einnig er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins en ríkisstjórn Íslands hefur lagt fjármagn á þessu ári í undirbúningsvinnuna og fyrirhugað er aukið framlag vegna framkvæmdanna en salurinn á að þjóna hlutverki menningarsalar fyrir Suðurland. Undirbúningsvinnan er nú í fullum gangi og mun Ari Guðmundsson frá verkfræðistofunni Verkís halda utan um þá vinnu með bygginganefndinni.

Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Ragnar Bogason frá Hótel Selfossi, Jakob Arnar Sverrisson frá Turninum 800 ehf eigandi hótelturnsins fyrir ofan menningarsalinn og Bent Larsen frá Larsen hönnun og ráðgjöf eigandi húsnæðisins sem hýsir Ísbúð Huppu, Domino’s og Subway.

Fyrri greinSmit í Vallaskóla – einn bekkur í sóttkví
Næsta greinNýja slökkvistöðin á Hellu tekin í notkun