Heimsfrægur arkitekt fær lóðir á Stokkseyri

Carlos Zapata, heimsfrægur arkitekt sem hannað hefur margar glæsibyggingar um allan heim, hefur fengið úthlutað lóðum við sjávarsíðuna á Stokkseyri.

Þar hyggst hann reisa veglegt og óvenjulegt hús úr stórgrýti, steypu og gleri. Húsið verður að mestu tvílyft, byggt í tveimur 250m2 áföngum. Í fyrri áfanganum ætlar Zapata þessi að byggja hús til eigin nota en síðar annað hús sem ætlað er að verði alþjóðleg gestavinnustofa fyrir hönnuði hvaðanæva úr heiminum.

Húsið verður rekið í samstarfi við Eymdina á Stokkseyri en þar munu alþjóðlegir myndlistarmenn jafnframt fá aðstöðu til skapandi starfa. Framkvæmdir á Stokkseyri hefjast í sumar.

Zapata lauk nýlega gerð hæstu byggingar Vietnam sem er 70 hæðir. Útstæður hringlaga þyrlupallur er eitt megineinkenni byggingarinnar.

Arkitektinn starfar í New York og vinnur nú að hönnun og gerð glæsihótels við Reykjavíkurhöfn ásamt samstarfsfélögum sínum hérlendis, þ.e þeim Guðjóni Bjarnasyni arkitekt og myndlistarmanni á Stokkseyri og arkitektastofunni Arkís en saman starfa þeir að hágæðaverkefnum undir nafninu ABZ-Arkitektar.

Fyrri greinLið FSu í 8-liða úrslit
Næsta greinDýpri lægð á leiðinni