Heimilt að hefja starfsemi í Efstadal II að nýju

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands fór í eftirlit í Ferðaþjónustuna í Efstadal 2 í gær til að sannreyna úrbætur á staðnum. Samkvæmt úttekt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er úrbótum lokið og er heimilt að hefja starfsemina að nýju.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Farið var í eftirfarandi úrbætur:
a. Alþrif og sótthreinsun á veitingasvæði, hurðum, göngum og salerni. Kælar tæmdir og þrifnir.
b. Mat í opnum umbúðum var fleygt.
c. Gangar, loft, handrið og wc málað.
d. Stétt þrifin með 80°C heitu vatni og Virkioni dreift.
e. Að auki var búið að loka fyrir alla lausagöngu dýra, líka hundsins. Lausaganga verður ekki leyfð fyrr en handþvottaaðstöðu hefur verið komið upp fyrir gesti og aðskilnaður á milli dýra og veitingasvæða efldur.

Heilbrigðiseftirlitið segir að þrátt fyrir að handþvottaaðstöðu hafi verið komið upp við inngang í veitingaaðstöðu verður samkvæmt ákvörðun staðarhaldara ekki um lausagöngu dýra að ræða að svo komnu máli.

Ísbúðin hefur jafnframt verið endurnýjuð og er heimilt að opna hana að nýju. Framleiðsla á ís hefur verið heimiluð og var það sannreynt með greiningu sýna að framleiðslan uppfyllir örverufræðilegar kröfur.

Fyrri greinLeitað að vitnum að líkamsárás
Næsta greinMýrdælingar buðu lægst í brú á Brunná