Heimildarmynd um Jónas Kristjánsson frumsýnd á næsta ári

(F.v.) Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar NLFÍ, Margrét Jónasdóttir framkvæmdastjóri heimildarmynda hjá Sagafilm, Tinna Proppé framleiðandi hjá Sagafilm, Brynja Gunnarsdóttir stjórnarmaður NLFR, Björg Stefánsdóttir skrifstofustjóri NLFÍ við undirritun samningsins. Ljósmynd/HNLFÍ

Í gær var undirritaður samningur milli Náttúrulækningafélags Íslands og Sagafilm um gerð heimildarmyndar um Jónas Kristjánsson lækni, stofnanda Náttúrulækningafélags Íslands og síðar Heilsustofnunar í Hveragerði.

Unnið hefur verið að undirbúningi myndarinnar um nokkurra ára skeið. Í heimildarmyndinni verða gerð skil á æviskeiði Jónasar, læknisstörfum á Héraði, þar sem hann hóf feril sinn, og í Skagafirði þar sem hann var héraðslæknir á árunum 1911-1938 en þar var Náttúrulækningafélagið stofnað á Hótel Tindastóli árið 1937.

„Við erum virkilega ánægð að þessi samningur sé nú kominn í höfn enda höfum við unnið lengi að undirbúningi myndarinnar. Það er mikil saga á bakvið Náttúrulækningafélag Íslands og ómetanlegt frumkvöðlastarf Jónasar og því erum við mjög spennt að hefja formlega vinnu að þessari heimildarmynd,” segir Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri Heilsustofnunar NLFÍ.

„Jónas var mikill frumkvöðull, hann varaði við hvíta sykrinum og hvítu hveiti sem hann sagði „ónáttúrlega og skemmda fæðutegundir, eiturblásið og svipt öllum beztu efnum sínum. Það er og verður aldrei annað en óhæf matvara, hversu glæst og ginnandi sem hún er gerð“. Hann fór ótrauður á móti straumnum og var sannur sjálfum sér, óháð skoðunum starfsbræðra sinni sem oftar en ekki stangaðist á. Enn í dag eru heilræði hans um mataræði og heilsufar í gildi. Hans verður ekki síður minnst sem flinks skurðlæknis, til eru fjölda sagna um læknisstörf hans sem Skagafirðingar ylja sér við að segja frá,” bætir Ingi Þór við.

Myndin verður frumsýnd á 150 ára ártíð Jónsar í september árið 2020.

Fyrri greinVildi ekki að Hafmeyjan væri munaðarlaus
Næsta greinGoðsögn við þjóðveginn kvödd