Heimamenn með lægsta tilboðið í hringtorg í Vík

Framrás ehf í Vík átti lægra tilboðið í gerð hringtorgs á Þjóðvegi 1 í Vík í Mýrdal og endurbótum á aðliggjandi vegum.

Tilboð Framrásar hljóðaði upp á rúmar 209 milljónir króna og var 85% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var 246 milljónir króna.

Eitt annað tilboð barst í verkið, frá Aðalleið ehf í Hveragerði, tæpar 217 milljónir króna.

Um er að ræða gerð hringtorgs á Þjóðvegi 1 í Vík auk breytinga allra aðliggjandi vega og stíga. Til framkvæmdanna teljast einnig breytingar á þjóðveginum rétt vestan hringtorgsins til móts við Víkurskála. Einnig á að endurnýja klæðningu á veginum vestanmegin, að Mýrarbraut.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mýrdalshrepps og á að vera að fullu lokið þann 1. október næstkomandi.

Fyrri greinEngin dagskrá á sjómannadaginn
Næsta greinHandtekinn eftir falskt útkall á Ölfusá