Heimamenn hafa ekki séð annað eins flugnager

Veiði hófst í Veiðivötnum þann 18. júní og hefur hún farið rólega af stað. Undanfarnar vikur hefur veður verið sérlega gott í Veiðivötnum og lífríkið 2-3 vikum fyrr á ferðinni en undanfarin ár.

Gróskan nær niður í vötnin og sést best á því hvað bleikjan er miklu fallegri en verið hefur síðustu ár. Nú eru menn til dæmis að fá 1-1,5 pd bleikjur í miklu magni í Langavatni. Fallegar bleikjur veiðast einnig í Nýjavatni, Breiðavatni og Snjóölduvatni.

Á heimasíðu Veiðivatna kemur fram að meira sé af rykmýi og vorflugu en áður, einkum við Litlasjó og í Hraunvötnum. Við Litlasjó hafa sandöldurnar litast gráar af toppflugu og hafa heimamenn varla séð annað eins flugnager.

Fiskurinn í Litlasjó og Grænavatni hefur væntanlega verið önnum kafinn í flugnaáti fyrstu veiðidagana og lítið fyrir að eltast við gerviæti. Veiðimenn fengu lítið í Litlasjó og ekkert í Grænavatni.

Núna er að verða breyting á, farið að hvessa með tilheyrandi ölduróti og vatnsblöndun og veiðin tekin að glæðast bæði í Grænavatni og Litlasjó. Þar fengu menn fína fiska í gær og verður líklega enn betra eftir þetta rok sem nú gengur yfir í Veiðivötnum.

Fyrri greinRangárþing eystra og Ölfus fá styrk
Næsta greinNýtt 200 kúa fjós í Gunnbjarnarholti