Heimamenn hafa áhyggjur af slysahættu

Umferð um Biskupstungnabraut neðst í Grímsnesi hefur aukist mikið undanfarin ár. Er nú svo komið að margir hafa efasemdir um að vegurinn anni umferðinni sem um hann fer.

Að sögn Gunnars Þorgeirssonar, odd­vita í Grímsnes- og Grafnings­hreppi, hefur þetta ástand orðið þeim sveitastjórnarmönnum tilefni nokkurra vangaveltna, meðal annars vegna slysahættu.

,,Vand­inn er hins vegar sá að það er einkaland þarna á báðar hendur og margir litlir aðilar sem þarf að semja um ef á að taka land undir vegagerð,“ sagði Gunnar. Hann sagði ennfremur að þó blasti við að það þyrfti að taka ákvörðun um framvindu mála, sérstaklega þar sem verið er að gera breytingar á veginum ofar í sveitarfélaginu.