Heimamenn buðu lægst í Þingskálaveg

Vegagerð. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þjótandi á Hellu átti lægsta tilboðið í endurbyggingu Þingskálavegar á Rangárvöllum sem vinna á að í sumar.

Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 260,7 milljónir króna en öll tilboðin sem bárust voru undir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem hljóðar upp á 316,9 milljónir króna.

Þrjú önnur fyrirtæki sendu inn tilboð; Mjölnir á Selfossi bauð 302,7 milljónir króna, Þróttur á Akranesi 307,9 milljónir króna og Borgarverk í Borgarnesi bauð 311,7 milljónir króna.

Um er að ræða endurbyggingu, breikkun og klæðningu á 7,5 kílómetra kafla frá Heiði á Rangárvöllum að Bolholti. Verkinu á að vera lokið þann 15. september næstkomandi.

Fyrri greinKristbjörg ráðin forstöðumaður íþróttamannvirkja
Næsta greinHlaup hafið úr Grímsvötnum