Heimamenn buðu lægst í hringtorg

Nýja hringtorgið leysir af þessi gatnamót á Flúðum. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Gröfutækni á Flúðum átti lægsta tilboðið í gerð hringtorgs á hlaðinu við Grund á Flúðum en tilboðin voru opnuð í dag.

Nýja hringtorgið er á mótum Skeiða- og Hrunamannavegar, Langholtsvegar og Túngötu á Flúðum og á það að vera fullbúið þann 13. september næstkomandi, en hringtorg og yfirborð gatna með kantsteinum og öllum merkingum skal vera tilbúið fyrir 15. júlí.

Í framkvæmdinni felst einnig gerð stíga og stígtenginga og færsla og endurnýjun á fráveitu-, hitaveitu-, raf-, og fjarskiptalögnum.

Tilboð Gröfutækni hljóðaði upp á tæpar 177 milljónir króna og er 81,6% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar. Eitt annað tilboð barst, frá Berg verktökum í Reykjavík og hljóðaði það upp á tæpar 208,4 milljónir króna.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hrunamannahrepps og veitufyrirtækja.

Yfirlitsmynd af framkvæmdasvæðinu. Mynd/Efla
Fyrri greinJakub og Barbara blakfólk ársins
Næsta greinSkrifstofa Skaftárhrepps og Kirkjubæjarstofa undir sama þaki