Heilsuvika í Rangárþingi eystra

Efnt verður til heilsuviku á Hvolsvelli fyrir íbúa í Rangárþingi eystra dagana 3. til 10. september nk.

Heilsuvikan hefst á kjötsúpudaginn 3. september, með því að vígður verður nýr Heilsustígur sem er 4 km að lengd með fjórtán mismunandi tækjum sem þeir sem áhuga hafa á, geta gert æfingar við þegar stígurinn er genginn eða hlaupinn.

Í upphafi er hægt að taka skemmri skírn sem eru 2,8 km. Sérstakar leiðbeiningar eru við hverja stöð en upphafsreitur er við Íþróttamiðstöðina á Hvolsvelli.

Tækin á heilsustígnum er gjöf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands.

Í heilsuvikunni verður gerð sérstök stundartafla þar sem einstaklingar og félög sem staðið hafa fyrir ýmiskonar heilsurækt munu kynna starfsemi sína. Í heilsuvikunni verður frítt fyrir íbúa sveitarfélagsins í Sundlaugina á Hvolsvelli og sá sem syndir mest þessa heilsuviku mun fá árskort í sundlaugina sem verðlaun.

Þá er stefnt að því að fá fyrirlesara um bætta heilsu og kynningu á mikilvægi heilbrigðs lífs og jafnvel að fá matreiðslunámskeið með heilsuréttum. Gert er ráð fyrir að þetta henti öllum kynslóðum, börnum, unglingum, fullorðnum og elstu kynslóðinni.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að heilsuvikan væri sérstakt tilhlökkunarefni og spurning hvort efnt verði til ástarviku í framhaldinu að hætti Bolvíkinga.

Fyrri greinEndurnýja samstarfssamning
Næsta greinSektir fyrir myndir í Sunnlenska