Heilsustofnun hlýtur alþjóðleg verðlaun

Heilsustofnun NLFÍ hefur hlotið nýsköpunarverðlaun Heilsulindarsamtaka Evrópu (ESPA) fyrir þróun á heilsuþjónustu fyrir almenning.

Verðlaunin eru veitt heilsulindum fyrir nýsköpun sem skilar sér í betri upplifun og árangursríkari starfi á öllum sviðum hvort sem um er að ræða meðferðir, rekstur eða markaðssetningu. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Vejle í Danmörku síðastliðinn fimmtudag.

ESPA (European Spas Association) eru samtök heilsulinda og heilsumiðstöðva í Evrópu sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Aðalfundur samtakanna fór fram í Vejle í Danmörkun dagana 21. og 22. maí. Á aðalfundinum voru veitt verðlaun fyrir nýsköpun í sex flokkum. Heilsustofnun vann í flokknum Innovation Medical Spa fyrir þróun á heilsuþjónustu fyrir almenning.

Heilsustofnun er staðsett í Hveragerði og var stofnuð árið 1955 af Náttúrulækningafélagi Íslands. Kjarninn í hugmyndafræði hennar er að efla heilbrigði, auka vellíðan og styrkja einstaklinginn í að bera ábyrgð á eigin heilsu. Heilsustofnun er ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir eigendur og fer allur ágóði af rekstri til frekari þróunar á starfi hennar.

„Heilsustofnun hefur verið leiðandi í fyrirbyggjandi meðferðum þar sem áhersla er lögð á endurhæfingu og heilsusamlega lifnaðarhætti,“ segir Margrét Grímsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsstofnun. „Þessi verðlaun eru mikilvæg viðurkenning á því starfi sem unnin er hjá Heilsustofnun og hvatning til að halda áfram á sömu braut,“ bætti hún við.