Heilsustígurinn í Þorlákshöfn tilbúinn

Framkvæmdum við nýjan heilsu- og æfingastíg í Þorlákshöfn er lokið. Stígurinn er 3,4 km langur og liggur eftir göngustígum og gangstéttum bæjarins.

Upphaf og endir stígsins er við íþróttamiðstöðina en notendur stígsins geta farið inn á hann hvar sem þeim hentar. Meðfram stígnum eru fimmtán æfingastöðvar, misstórar allt frá einum staur og upp í töluvert mannvirki. Við hverja stöð er skilti með leiðbeiningum um æfingar en æfingunum er skipt upp í styrk, liðleika/fimi og úthald.

Framkvæmdirnar við stíginn hófust í vor en stígar sem þessir hafa verið settir upp víðsvegar um Evrópu á síðustu árum. Lýðheilsu verkefnið Vitaparcours (æfingastígar) hófst hjá svissnesku tryggingarfélagi fyrir árið 1970 en verkefnið hefur verið í stöðugri þróun síðan.

Æfingarnar við stíginn henta öllum, jafnt þjálfuðum sem óþjálfuðum, öldruðum, íþróttafólki og unglingum og er kjörinn fyrir kyrrsetufólk sem vill breyta um lífstíl.

Fyrri greinTilgangurinn er að hjálpa til í samfélaginu
Næsta greinSelfyssingar segja Gunnari upp