Heilsustígur opnaður í upphafi heilsuviku

Heilsuvikan í Rangárþingi eystra hófst í gærmorgun með því að opnaður var rúmlega 4 km langur heilsustígur á Hvolsvelli.

Unnið hefur verið að því í sumar að setja upp æfingatæki á heilsustígnum en sveitarfélagið keypti tækin frá leikfangasmiðjunni Krumma í vetur. Starfsmenn áhaldahússins hafa sett upp tækin í samvinnu við Heilsustíga ehf. Um er að ræða fjórtán æfingastöðvar við stíginn þar sem vegfarendur geta gert ýmis konar æfingar á göngu sinni um þorpið.

Opnun heilsustígsins markaði upphaf heilsuviku í sveitarfélaginu en markmið hennar er að kynna fyrir íbúum svæðisins það sem í boði er til að efla bæði líkama og sál.

“Haustið er tíminn þegar fólk fer oft að huga að þessum efnum eftir sumarfrí og því ekkert að vanbúnaði en að reyna að ná utan um það á einum stað. Þetta er í fyrsta sinn sem heilsuvika er haldið með þessum hætti og gaman að finna áhuga bæði þeirra sem vilja hjálpa okkur að bæta bæði líkamlega og andlega líðan og ekki síður íbúa,” sagði Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, í samtali við sunnlenska.is, en sveitarstjórinn mun m.a. kenna áhugasömum grunnatriðin í badminton í heilsuvikunni.

Frítt verður í sund fyrir íbúa Rangárþings eystra alla vikuna en opnunartími sundlaugarinnar frá 1. september verður alla virka daga kl. 6.30-20.45 og um helgar kl. 10.00 –17.00. Sá/sú sem syndir lengst í heilsuvikunni fær árskort í sund í verðlaun. Leyfilegt er að synda tvisvar á dag.

Dagskrá heilsuvikunnar má finna hér.

heilsustigur2_hvolsv030911sigj_271949790.jpg
Fjöldi fólks mætti í opnunarferð heilsustígsins. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

heilsustigur3_hvolsv030911_291307310.jpg
Stígurinn er rúmlega 4 km langur en einnig er hægt að fara styttri hring.