Heilsustígur í hlíðum Reykjafjalls

Á dögunum undirrituðu Hveragerðisbær og Heilsustígar ehf. samkomulag um hönnun og ráðgjöf vegna uppsetningar á heilsustígakerfi í hlíðum Reykjafjalls við Hveragerði.

Þetta er fyrsti heilsustígurinn á landinu og er hann hugsaður til að bæta lýðheilsu almennings og aðgengi ferðamanna að spennandi útivistarmöguleikum með uppsetningu þrek- og æfingastöðva.

„Með tilkomu heilsustígsins teljum við að ferðamenn og almenningur sjái nýja möguleika til líkamsræktar og munum við tengja upphaf og lok göngustígsins við sundlaugina Laugaskarði,“ segir Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, í samtali við sunnlenska.is.

Hver æfingastöð samanstendur af æfingum sem reynir á mismunandi vöðvahópa annaðhvort vöðvaþol eða -styrk. Æfingarnar henta jafnt þjálfuðum sem og óþjálfuðum einstaklingum. Upplýsingaskilti um framkvæmd æfinga verða á hverri æfingastöð.

Fyrirhugað er að opna fyrsta áfanga stígsins, fimm stöðvar nú í byrjun sumars. Íþróttafélagið Hamar mun koma að framkvæmdinni ásamt fleiri stofnunum og félögum í bænum.