Heilsuhelgi í Þykkvabænum

Enn eru laus pláss á heilsuhelgina sem Heilsusetrið í Þykkvabæ stendur fyrir á föstudag og laugardag um næstu helgi, 8. og 9. febrúar.

Mæting er milli kl. 17 og 18 á föstudag í skólahúsið í Þykkvabæ en kl. 18 verður Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir með tíma í Kundalini Yoga. Síðar um kvöldið verður svo hugleiðsla og slökun fyrir svefninn.

Á laugardagsmorgun verður góður göngutúr og fræðsla um Young Living olíur en eftir hádegi verður hægt að fá margskonar meðferðir, svosem regndropameðferð, segulmeðferð og fræmeðferð auk þess sem boðið verður upp á heilun.

“Hópurinn sem stendur á bakvið þetta vill stuðla að bættri heilsu. Við höfum verið að hittast á fimmtudögum síðan í nóvember í skólahúsinu í Þykkvabæ, stundum þar hugleiðslu, slökun og fleira og köllum þetta Heilsusetur,” sagði Brynja Rúnarsdóttir í samtali við sunnlenska.is. “Fimmtudagskvöldin eru öllum opin og næst hittumst við þann 21. febrúar kl. 20.”

Kostnaður við hollustufæði, yoga og gistingu um helgina er 6.500 krónur en skráning stendur ennþá yfir hjá Brynju á netfangið brynfridur@hotmail.com.

Fyrri greinFrábær fyrri hálfleikur dugði ekki til
Næsta greinBlind stefnumót í boði í Þorlákshöfn