Heilsugæslan á Hvolsvelli opin þrjá daga í viku

Takmarkaður opnunartími heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hvolsvelli er afturför og á skjön við stefnu ríkisins þar sem gert er ráð fyrir öflugri nærþjónustu við íbúa, þar með talinni heilsugæslu.

Þetta segir í tilkynningu á Facebooksíðu Rangárþings eystra.

Í gær tilkynnti framkvæmdastjórn HSu að heilsugæslan á Hvolsvelli verði aðeins opin þrjá daga í viku, á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Heilsugæslan hefur verið lokuð síðan í sumar vegna fyrirhugaðra framkvæmda en engar framkvæmdir hafa farið fram á húsnæðinu. Samkvæmt tilkynningunni frá framkvæmdastjórninni á nú að opna heilsugæsluna frá og með 16. nóvember án þess að húsnæðið hafi verið endurbætt.

Á þeim tíma sem lokunin hefur staðið yfir hefur öll þjónusta vegna heimahjúkrunar, móttaka sérfræðinga, mæðravernd og ungbarnavernd verið sinnt frá heilsugæslunni á Hellu og verður svo áfram.

„[Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri] segir einnig í fréttatilkynningu að þetta fyrirkomulag sé bætt þjónusta við íbúa Rangárþings og þannig sé verið að nýta betur þann mannafla og fagmenn sem veita heilbrigðisþjónustu hjá HSu í Rangárþingi.Þetta er veruleg þjónustuskerðing fyrir íbúa Rangárþings eystra sem hefur verið lofað að ekki komi til lokunar á þessum heilsugæslustöðvum,“ segir í tilkynningunni frá Rangárþingi eystra.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur fundað um málefni heilsugæslunnar á Hvolsvelli við framkvæmdastjórn HSu. Einnig fjallaði sveitarstjórn um málið á fundi sínum í gær og hefur forstjóra HSu verið sent erindi í framhaldi af fundinum.

Fyrri greinEkki slegist um óskilahrossin
Næsta greinGóður sigur á heimavelli