„Heilsueflandi áhrif kakóbaunarinnar eru ótvíræð“

Ljósmynd/Aðsend

Fimmtudaginn 14. nóvember verður haldið svokallað KakóRó á Hellu en það er ákveðið form af hugleiðslu.

„Ég hef komið reglulega í Þykkvabæinn í tæplega eitt og hálft ár, þökk sé Brynju Rúnarsdóttir sem bauð mér að koma. Nú er hún búin að færa sig um set yfir á Hellu og bauð mér þangað sem ég þáði með þökkum,“ segir Kamilla Ingibergsdóttir, tónheilari og jógakennari, sem stendur fyrir KakóRó á Hellu, í samtali við sunnlenska.is.

„Mér finnst alltaf svo gott að komast úr borginni í rólegheitin á Suðurlandi og hef verið heppin að fá til mín góðan hóp af konum í slökun og endurnæringu. Ég nota svo yfirleitt tækifærið og stoppa við Urriðafoss, klappa hestum einhvers staðar og nýt þess að vera komin í kyrrðina,“ segir Kamilla.

Ljósmynd/Aðsend

Forsprakki kakóhugleiðslu á Íslandi
„Ég byrjaði á að halda kakóhugleiðslur árið 2016. Á vormánuðum það ár kom litla kakóbaunin eins og stormsveipur inn í líf mitt og umturnaði því. Þá var ég á miklum tímamótum í lífinu og gerði mér ekki í hugarlund hvað ég og kakóbaunin myndum tengjast sterkum böndum. Síðan þá hef ég farið fimm sinnum til Gvatemala en kakóið kemur þaðan. Ég hef bæði farið þangað ein og með hópa í jóga-, hugleiðslu- og kakóferðir,“ segir Kamilla en þessa má geta að hún er einn helsti forsprakki kakóhugleiðslu á Íslandi.

„Tímarnir mínir hafa svo breyst og þróast á þessum árum, í takt við mína þróun, og nú blanda ég mikið saman öndunaræfingum, djúpslökun og tónheilun. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt sem ég vil bjóða upp á í tímunum mínum,“ segir Kamilla.

Hvíldarinnlögn fyrir sálina
Kamilla segir að kakóið sé dásamlegur hjálpari við bæði hugleiðslu og jóga. „Það eykur blóðflæði og dregum úr bólgum, auk þess sem það dregur úr framleiðslu á kortisóli í líkamanum en það er streituhormónið okkar. Það er líka fullt af magnesíum sem hjálpar okkur að slaka á í líkamanum og vöðvum. Mér þykir kakóið dýpka alla mína iðkun og ég hef drukkið það daglega undanfarið þrjú ár.“

Að sögn Kamillu er kakóhugleiðsla í raun eins og hvíldarinnlögn fyrir líkama, huga og sál. „Tíminn hefst á að drekka kakóbolla og lenda á staðnum en oft erum við á yfirsnúningi og því mikilvægt að hlúa að sér á þennan hátt. Svo taka við nokkrar öndunaræfingar og liggjandi djúpslökun og hugleiðsla. Þetta er djúp slökun og gefur fólki tækifæri til að njóta hvíldar sem er ólík því sem við upplifum heima hjá okkur í daglegu lífi,“ segir Kamilla.

Ljósmynd/Aðsend

Heilsueflandi kakó
Kakóið frá Gvatemala sem er notað við hugleiðsluna er ekkert venjulegt kakó. „Þetta hreina kakó er eins lítið unnið og mögulegt er. Það er unnið við lágan hita en eftir því sem meiri hiti er notaður í vinnslu á matvælum og varan meira unnin þá tapar hún næringarinnihaldi og virkni, svipað og gerist þegar við til dæmis sjóðum grænmeti í stað þess að borða það hrátt. Kakóið innheldur bæði kakó og kakósmjör sem hjálpar okkur svo að taka upp þann fjölda næringarefna sem það hefur að geyma. Kakóbaunin hefur verið rannsökuð víða, meðal annars við Yale og Harvard, og heilsueflandi áhrif hennar eru ótvíræð,“ segir Kamilla.

Kamilla segir að kakóhugleiðsla sé fyrir alla. „Hún er fyrir konur og karla, unga sem aldna og sérstaklega þau sem finna fyrir þörf til að staldra við, slaka á og hlúa að sér.“

Hlýði kallinu þegar það kemur
„Ég er alltaf opin fyrir því að vinna utan höfuðborgarsvæðisins og fer reglulega í Om setrið í Reykjanesbæ og hef farið hringinn um landið með kakóhugleiðslur. Ég hlýði bara kallinu þegar það kemur,“ segir Kamilla, aðspurð hvort það standi til að halda KakóRó á fleirum stöðum á Suðurlandi.

Þess má geta að aðeins eru örfá pláss eftir á KakóRó á Hellu á fimmtudaginn.

Áhugasamir um kakóið frá Gvatemala og kakóhugleiðslu er bent á heimasíðu Kamillu, kako.is.

Facebook-viðburður KakóRó

Fyrri grein„Draumabyrjun á aðventunni“
Næsta greinSautján umferðaróhöpp í dagbók lögreglunnar