Heilsudjamm á Flúðum

Á Jónsmessu verður Sveita-samflot í Gömlu lauginni, náttúrulauginni við Garð í Hrunamannahreppi.

„Þetta snýst um koma saman, um fimmtíu manns til að fljóta saman í friði og ró og í góðu rými í rúma klukkustund. Við köllum þetta gjarnan heilsudjamm því þarna leysum við eigin boðefni úr læðingi í gegnum hvíld eða hugleiðslu,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir en hún og Jóhanna systir hennar standa fyrir Sveita-samflotinu ásamt Float.

„Kannski er einmitt svona Sveita-Samflot það sem flotið snýst raunverulega um sem er ró og næði í fallegri náttúrulaug. Við leigjum laugina frá 22:00 til miðnættis og gætum þess að að allir fái notið sín,“ segir Guðrún en þetta er í sjötta sinn sem Sveita-samflotið er haldið í Gömlu lauginni.


Ljósmynd Guðrún Kristjánsdóttir.

Hafa flotið í öllum veðrum
„Við byrjuðum á Sveita-Samflotunum fyrir réttu ári síðan og þau slógu strax í gegn. Við höfum flotið á Flúðum í öllum veðrum, í bjartri sumarnótt sem stjörnubjörtu. Það er allt jafn töfrandi. Í þetta sinn fáum við með okkur frábæran jógakennara til að dýpka flot upplifunina en það er Sólveig Þórarinsdóttir eigandi jóga- og heilsusetursins Sólir. Hún ætlar að spila á Gong í upphafi flots og eins og einhver sagði á það örugglega eftir að auka nytin í kúnum í sveitinni líka,“ segir Guðrún.

Að sögn Guðrúnar er tímasetningin á Sveita-samflotinu engin tilviljun. „Jónsmessan er einn af mest töfrandi dögum ársins. Kýrnar tala og selir fara úr ham sínum. Svo er mjög auðvelt að velta sér upp úr dögginni sem umlykur grasið þarna í kring ef út í það er farið. Döggin hefur sérstakan lækningamátt á Jónsmessunótt.“

Guðrún segir að samflot sé fyrir fólk á öllum aldri. „Konur eru enn sem komið er í meirihluta en karlmönnunum fer fjölgandi. Og pörum líka. Því þetta er líka svolítil sveitarómantík. Satt að segja er mjög skemmtilegt að sjá karlmenn kolfalla fyrir flotinu hvern á fætur öðrum. Þetta er nefnilega „instant“ slökun, sem margir þurfa nauðsynlega á að halda.“


Ljósmynd Guðrún Kristjánsdóttir.

Fólk leyfi sér að slaka á
Aðspurð hver ávinningurinn sé af því að láta sig fljóta segir Guðrún þá vera svo marga að það sé varla hægt að telja þá alla upp. „Bara það það eitt og sér að fólk gefi sér tíma og leyfi til að slaka eða hugleiða í þyngdarleysi út í náttúrunni er dásamleg upplifun.“

„Á bak við það að láta sig fljóta liggja margar vísindalegar rannsóknir, meðal annars þær sem segja okkur það að við sofum betur, verkir minnka, það dregur úr kvíða og eykur sköpunarkraft. Við getum komist á slóðir munka sem hafa hafa hugleitt í mörg ár. Það nýjasta í rannsóknum gefur svo sterkar vísbendingar að það hjálpar fólki sem er með áfallastreituröskun,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að það sé bæði gott að láta sig fljóta einn og með öðrum. „Hvoru tveggja er frábær upplifun. En það er eitthvað við það að vera saman, stilla saman strengi sína. Það bara ýtir undir upplifunina, ég tala nú ekki um eftir á þegar öllum líður vel. Þá skapast oft mjög fallegt andrúmsloft.“

Aðspurð segir Guðrún að fólk þurfi ekki endilega að vera fastandi fyrir flotið en það sé heldur ekki gott að vera mjög saddur. „Eins undarlega og það hljómar (því hreyfingin er ekki mikil) eru allir mjög svangir eftir Sveita-Samflotið og elska því að fá súrdeigssamloku, drykk og rótsterkt engiferskot á eftir. Það er sannarlega partur af upplifuninni,“ segir Guðrún að lokum.

Allar nánari upplýsingar um Sveita-samflotið má finna hér.