Heilsárshótel í Vík 2015

Framkvæmdir eru hafnar að 2.500 fermetra viðbyggingu við Hótel Vík í Mýrdalnum, en það eru JÁ verktakar á Selfossi sem annast framkvæmdina.

Viðbyggingin verður tekin í notkun í þremur áföngum, en stefnt er að því að fyrsti áfanginn verði klár í júlí á næsta ári.

„Við byrjum á því að taka í notkun tuttugu herbergi næsta sumar. Þetta er bygging sem verður á tveimur hæðum og við tökum fyrst hluta af efri hæðinni í notkun. Við ætlum svo að verða tilbúin með allt saman 2015,“ segir Elías Guðmundsson, hótelstjóri.

Hann segir að herbergin, sem verða í heildina 45 í viðbyggingunni, verði á efri hæð hússins og á neðri hæðinni verða veitingasalir, eldhús, bar og setustofa auk þess sem þar verður smá heilsulind, afþreyingarsalur með nuddpotti.

„Hóteleiningin sem slík verður mjög hentug fyrir heilsársrekstur og þetta verður rekið sem heilsárshótel þegar allt er saman komið,“ segir Elías en það hefur verið rekið sem sumarhótel og hluti af keðju Edduhótela um landið. Það mun líklega breytast eftir að hótelið verður að heilsárshóteli.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinBestu jólahúsin verðlaunuð
Næsta greinJólamessur í Flóahreppi