Heildarveltan í júní lægri en undanfarin ár

Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alls var 80 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í júní síðastliðnum. Þar af voru 19 samningar um eignir í fjölbýli, 33 samningar um eignir í sérbýli og 28 samningar um annars konar eignir. 

Heildarveltan var rétt rúmir 2,4 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 30 milljónir króna.

Af þessum 80 samningum voru 35 samningar um eignir í Árborg, Hvergerði og Þorlákshöfn. Á þeim stöðum voru 9 samningar um eignir í fjölbýli, 21 samningur um eign í sérbýli og 5 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 1,3 milljarður króna og meðalupphæð á samning 37 milljónir króna.

Heildarveltan á Suðurlandi er talsvert minni en í júní á síðustu árum. Síðustu tvö ár hefur veltan verið yfir 3 milljörðum í júní og fara þarf aftur til ársins 2015 til þess að finna lægri heildarveltu í mánuðinum.

Fyrri greinLeitað að fólki á Kili
Næsta greinEva María Íslandsmeistari í hástökki