„Heildarniðurstaðan neikvæð“

,,Þessi skýrsla er mikilvægt innlegg í umræðuna enda ljóst að það verða miklar breytingar í garðyrkjunni ef við göngum inn í ESB.“

Þetta segir Sveinn A. Sæland, garðyrkumaður á Espiflöt í Biskupstungum um nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu og horfur garðyrkjunnar ef Ísland gengur inn í Evrópusambandið.

,,Heilt yfir má segja að skýrslan sýni að það komi ekki vel út fyrir garðyrkjuna,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að vissulega megi alltaf finna einhverja ljósa punkta en ljóst væri þó af skýrslunni að innganga í ESB myndi ekki færa garðyrkjunni tækifæri. Þvert á móti myndi hún líklega kalla á mikla varnarbaráttu fyrir garðyrkjuna. ,,Því miður er heildarniðurstaðan neikvæð,“ sagði Sveinn.

Af niðurstöðum skýrslunnar má ráða að heildaráhrifin á garðyrkjuna verða umtalsverð ef til aðildar kemur. Framleiðslusamsetning garðyrkjunnar mun að öllum líkindum breytast og aðlagast breyttu umhverfi og er samdráttur óumflýjanlegur í ræktun sumra tegunda.

Þannig segja skýrsluhöfundar að erfitt sé að sjá það fyrir sér að mörg blómabú geti umborið óumflýjanlegan tekjusamdrátt við aðild að ESB.

Fjallað um reynslu Finna
Í síðari hluta skýrslunnar er fjallað um reynslu Finna af aðild að ESB og þá þróun sem átt hefur sér stað þar frá aðild. Sveinn segir að mikill fengur væri að þeim samanburði enda ljóst að staða Íslands og Finnlands er að mörgu leyti sambærileg. Af reynslu Finna má sjá að garðyrkjan hefur tekið nokkrum breytingum og aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Opnun markaðar hefur gert það að verkum að innlendir aðildar eru hættir að rækta margskonar blóm og hafa þess í stað fundið sínu fyrirtæki farveg í ræktun á pottaplöntum eða öðrum tegundum grænmetis og ávaxta. Fyrirtæki hafa stækkað og þeim hefur fækkað en samt sem áður er það flatarmál sem fer undir ræktun óbreytt.

Rekstrarafkoma garðyrkjunnar versnaði nokkuð við aðild en hefur hinsvegar jafnað sig og er afkoman nú svipuð og fyrir aðild. Athygli vekur að afkomuþróunin í finnskri garðyrkju hefur verið töluvert hagfelldari en landbúnaðarins í heild. Um 40% af styrkjum í finnskum landbúnaði eru greiddir af ESB og 60% af finnska ríkinu.

Fyrri greinStórleikur í Höfninni í kvöld
Næsta greinSamið við Ístak um Búðarhálsvirkjun