Heildarkostnaður við framkvæmdina 670,5 milljónir króna

Nýbyggingin við Sundhöll Selfoss kostaði Sveitarfélagið Árborg tæplega 670,5 milljónir króna með þeim viðbótarverkum sem orðið hafa á verktímanum.

Bæjarfulltrúar S-lista óskuðu eftir sundurliðuðu kostnaðaryfirliti framkvæmdarinnar fyrir síðasta bæjarstjórnarfund. Í greinargerð með fyrirspurninni segja þau Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson að til þess að uppfylla kröfur um opna og góða stjórnsýsluhætti sé sjálfsagt að leggja svörin fram á bæjarstjórnarfundi til upplýsingar fyrir íbúa og bæjarfulltrúa. Um væri að ræða stórstu einstöku framkvæmd sem sveitarfélagið hefur ráðist í á undanförnum árum.

Í svari Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, kemur fram að verksamningur við JÁVERK ehf um viðbygginguna hafi hljóðað upp á 477 milljónir króna auk virðisaukaskatts, og kostnaðurinn hafi numið rétt tæplega 477 milljónum auk vsk.

Á framkvæmdatímanum tók byggingarnefnd Sundhallar ákvarðanir um nokkur viðbótarverk tengd eldri byggingunni, til viðbótar upphaflegum verksamningi. Samtals hafa verið greiddar rúmlega 39,8 milljónir króna auk vsk. fyrir þau verk. Er þar t.d. um að ræða endurnýjun á hluta þaks eldra húss, endurnýjun á loftræstikerfi við gömlu innilaugina, málun á gluggum og veggjum eldra húss, endurnýjun saunaklefa og endurbætur á kjallara eldra húss.

Eins og sunnlenska.is greindi frá á sínum tíma þurfti að skipta út gólfefnum við innilaug í nýbyggingunni vegna tíðra hálkuslysa. Hlutdeild sveitarfélagsins í kostnaði við útskipti á gólfefnum við innilaug nam rúmlega 1,6 milljónum króna auk vsk.

Enn á eftir að vinna eða reikningsfæra nokkra kostnaðarliði sem falla undir viðbótaverk, einkum í kjallara eldra hússins. Þar er alls um að ræða tæpar 5,5 milljónir króna auk vsk.

Samtals er því kostnaðurinn við nýbygginguna og breytingar á eldra húsnæði 670.467.662 kr. með virðisaukaskatti.

Fram kom í svari Ástu á síðasta bæjarstjórnarfundi að framkvæmdin væri afar vel heppnuð og samningurinn við JÁVERK hafi staðist í öllum atriðum. Ákvarðanir byggingarnefndar um að vinna verk til viðbótar upphaflegum samningi hafa verið teknar á grundvelli vettvangsskoðana og kostnaðaráætlana og aðhalds gætt í hvívetna. Þá skili starfsemi World Class á efri hæð nýbyggingarinnar tekjum inn í reksturinn sem koma á móti fjárfestingarkostnaðinum.

Fyrri greinHaukar jöfnuðu í Þorlákshöfn
Næsta greinÁtta sækja um embætti landgræðslustjóra