Heilagur draumur á Íslensku tónlistarverðlaununum

Kammerkór Suðurlands mun í kvöld flytja verkið Lambið af nýjustu plötu sinni Heilagur draumur við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011.

Plata kórsins er tilnefnd sem hljómplata ársins í flokknum sígild- og samtímatónlist.

Sigríður Guðnadóttir, kórmeðlimur, segir tilnefninguna mikla viðurkenningu fyrir stjórnanda kórsins, Hilmar Örn Agnarsson og alla þá sem komið hafa að útgáfu plötunnar, en Hilmar Örn verður ekki viðstaddur afhendinguna vegna veikinda og mun kórinn því syngja án hans stjórnar í kvöld.

“Nærveru Hilmars verður sárt saknað enda teljum við það forréttindi að syngja undir hans stjórn þar sem hann er mikill músíkant og flytur okkur með sér í óþekktar víddir í túlkun sinni á tónlist,” segir Sigríður.

“Þessi túlkun hans og einstaka jákvæðni verður því höfð að leiðarljósi við flutning okkar á Lambinu í kvöld og munum við syngja honum til heiðurs með ósk um skjótan bata,” segir hún.

Heilagur draumur hefur hlotið mikið lof gagnrýenda og var meðal annars valin plata mánaðarins af breska tónlistartímaritinu Grammophone en platan er afrakstur fimm ára samstarfs kórsins við hið virta breska tónskáld Sir John Tavener.

Bein útsending verður í Ríkissjónvarpinu í kvöld frá afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna sem fram fer í Þjóðleikhúsinu og hefst klukkan 20:00.

Fyrri greinTáknrænt fórnarlamb óstöðugs gengis
Næsta greinTölvupóstur veldur uppnámi