„Heiður að vera í þessum hópi“

Guðmundur Ármann Pétursson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tvö sunnlensk fyrirtæki, Broddur og HorseDay, hafa verið valin af Icelandic Startups til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita – frá hugmynd í hillu.

Tíu sprotafyrirtæki voru valin en verkefnið leggur áherslu á sjálfbærar lausnir í landbúnaði og sjávarútvegi.

Fá tækifæri til að þroska hugmyndina
„Það er mikill heiður að fá að vera í þessum hópi og að fá tækifæri til að þroska hugmyndina og þróa frekar í því umhverfi og með þeim stuðning sem Hraðallinn býður upp á,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson í samtali við sunnlenska.is en hann og kona hans, Birna G. Ásbjörnsdóttir, eru eigendur Brodds.

Guðmundur segir að þau hjónin hafi um árabil fengið sér „skot“ af broddmjólk en fyrir þá sem ekki vita kallast fyrsta mjólkin eftir að kýr bera broddur.

„Það var síðan einn morguninn, þegar við vorum að fá okkur skot, að spurning vaknaði hvort við gætum ekki gert eitthvað með þetta. Þá fór boltinn fyrst af stað og við höfum með hléum í nokkur misseri verið að þróa vöru úr broddmjólk. Bæði hefur verkefnið snúið að vörunni sjálfri, söfnun á broddmjólk, samstarfi við bændur, heilbrigðismálum og ekki síst rannsóknum,“ segir Guðmundur.

Markmiðið að koma vörunni fljótlega á markað
„Við höfum verið að taka saman hvað hefur verið rannsakað ásamt því að framkvæma frekari rannsóknir, en slíkar rannsóknir eru ekki til á íslenskri broddmjólk.“

Guðmundur segir að markmiðið sé að koma fyrstu heilsuskotunum úr broddmjólk á markað fljótlega og samhliða því að halda markvisst áfram frekari rannsóknum og þróun á vörunni.

„Við erum þakklát fyrir að komast í þennan hóp og að fá þetta tækifæri til stuðnings við verkefnið, þannig að við getum vonandi fyrr en ella komið þessari frábæru vöru á markað,“ segir Guðmundur.

Sem fyrr segir komst sunnlenska fyrirtækið HorseDay einnig í úrslit. HorseDay er stafræn þjálfunardagbók fyrir hesta sem styðst við æfingasafn viðurkenndra þjálfunaraðferða frá Háskólanum á Hólum. Á bak við HorseDay standa Marta Rut Ólafsdóttir og Oddur Ólafsson.

Aðstoða frumkvöðla við að byggja upp næstu kynslóð fyrirtækja
Yfir sjötíu umsóknir bárust í hraðalinn sem fer nú fram í annað sinn í haust. Markmiðið er hvetja til aukinnar nýsköpunar í þessum grunnatvinnugreinum þjóðarinnar og aðstoða frumkvöðla við að byggja upp næstu kynslóð fyrirtækja með því að veita þeim faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra.

Icelandic Startups hefur umsjón með hraðlinum í samstarfi við Íslenska sjávarklasann og er verkefnið styrkt af Matarauði Íslands, Nettó og Landbúnaðarklasanum. Þau fyrirtæki sem valin eru til þátttöku fá tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum undir leiðsögn sérfræðinga í tíu vikur og aðgang að breiðu tengslaneti.