Heiðinni og Þrengslunum lokað aftur

Búið er að loka Hellisheiðinni, Þrengslum og Sandskeiði um óákveðinn tíma.

Veður er að versna sunnanlands, sérstaklega á fjallvegum. Á Hellisheiði og í Þrengslum er nú fyrir hádegi búist við vaxandi hríðarkófi með lélegu skyggni.

Tveggja bíla árekstur varð á Hellisheiði þar um kl. 9 en engan sakaði. Á annan tug bifreiða sitja þar fastar samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Björgunarsveitir frá Hveragerði, Eyrarbakka og höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út til aðstoðar á Hellisheiði og í Þrengslum. Margir ökumenn hafa lent í vandræðum og er fjöldi bíla fastur, m.a. í brekkunum við Kaffistofuna og Skíðaskálann, í Þrengslunum og á heiðinni sjálfri.

Flestar aðalleiðir á Suðurlandi eru færar þó er og víða þungfært á fáfarnari sveitavegum. Enn er ófært á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en unnið að hreinsun.

Fyrri greinBúið að opna Heiðina
Næsta greinByggða- og húsakönnun á Stokkseyri