Heiða Guðný efst á Z-listanum

Frambjóðendur Z-listans í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ljósmynd/Aðsend

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, sauðfjárbóndi á Ljótarstöðum, leiðir Z-listann, Sól í Skaftárhreppi, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þann 26. maí næstkomandi.

Heiða Guðný er núverandi hreppsnefndarfulltrúi framboðsins en Sól í Skaftárhreppi fékk 19,7% atkvæða í kosningunum árið 2014 og einn hreppsnefndarmann kjörinn.

Í tilkynningu frá framboðinu segir að Z-listinn sé óháð framboð sem hefur áhuga á að byggja upp gott samfélag í Skaftárhreppi. Framboðið leggur áherslu á að jákvæðni, samstaða, opin umræða og skoðanaskipti sé forsenda jákvæðs samfélags. Hver íbúi er mikilvægur og nýta þarf styrkleika allra til að vinna saman að úrlausn þeirra verkefna sem fyrir liggja.

Framtíðarsýn Z-listans er skýr, markmiðið er að Skaftárhreppur sé fjölskylduvænt samfélag með öfluga þjónustu við íbúana.

„Við leggjum mikla áherslu á að viðhalda stöðugleika í fjármálum. Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er góð sem er fagnaðarefni sem ber að þakka og nýta til uppbyggingar. Okkur í Sól í Skaftárhreppi er mjög annt um náttúruna og viljum að hún fái ávallt að njóta vafans. Við viljum ekki stórar vatnsaflsvirkjanir með miðlunarlónum heldur vernda þær náttúruauðlindir sem okkur voru gefnar og skila þeim til næstu kynslóðar, jafn góðum eða betri en við tókum við þeim. Það sem við gerum í dag hefur áhrif á framtíðina og því er sjálfbærni höfð að leiðarljósi í öllu okkar starfi,“ segir í tilkynningunni frá framboðinu.

Z-listinn er þannig skipaður:
1. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir sauðfjárbóndi Ljótarstöðum
2. Arndís Jóhanna Harðardóttir bóndi Efri-Ey I
3. Jóna Björk Jónsdóttir líffræðingur Mörtungu I
4. Gústaf B. Pálsson verktaki Hörgsdal
5. Kristbjörg Hilmarsdóttir bóndi og ferðaþj.bóndi Þykkvabæjarklaustri 2
6. Rannveig Ólafsdóttir náttúrufr./bóndi Mörtungu II
7. Lilja Magnúsdóttir íslenskufræðingur Kirkjubæ I
8. Þórdís Bjarnleifsdóttir bóndi Melhól 2
9. Sigurður Arnar Sverrisson bifvélavirkjameistari Þykkvabæjarklaustri 2
10. Hilmar Gunnarsson ellilífeyrisþegi Skerjavöllum 6

Fyrri greinHanna og Perla framlengja við Selfoss
Næsta greinHvolpasveit