Heiðursverðlaun garðyrkjunnar fóru í Ártanga í Grímsnesi

Garðyrkjuverðlaunin 2015 voru afhent við hátíðarlega athöfn í opnu húsi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta.

Skrúðgarðyrkjufyrirtækið Stjörnugarðar, Þórir Kr. Þórisson, skrúðgarðyrkjumeistari var valinn besti verknámsstaður ársins og Brandur Gíslason, skrúðgarðyrkjumeistari hlaut heiðursverðlaun garðyrkjunnar.

Gróðrarstöðin Ártangi í Grímsnesi hjá þeim Gunnari Þorgeirssyni og Sigurdísi Eddu Jóhannesdóttur fékk hvatningaverðlaunin. Stöðina stofnuðu þau 1986. Nú starfa á bilinu sjö til tíu manns í um 4000 fermetra ræktunarrými á Ártanga, sem bæði eru gróðurhús og kælar. Þar framleiða þau kryddplöntur allan ársins hring.

Á vorin eru þau áfram með sumarblóm, en á veturna laukblóm. Þar eru túlípanar langstærsta sölueiningin með tugum lita og afbrigða. Kryddjurtirnar eru seldar í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna, sem dreifir þeim í dagvöruverslanir. Túlípanana og sumarblómin selja þau í Grænan markað sem dreifir í blómabúðir.

Á sumrin eru Gunnar og Sigurdís Edda líka með heimasölu í Ártanga og fólk sem á leið um getur stoppað og keypt þar krydd og blóm.

Fyrri grein60 milljón króna hagnaður af rekstri bæjarins
Næsta greinDavíð til Hveragerðisbæjar