Heiðin og Þrengslin lokuð vegna veðurs

Hellisheiði, Þrengsli og Sandskeið eru lokuð vegna veðurs. Fjöldi bíla eru fastir á leiðinni en mikið óveður er á svæðinu og spáð er stormi í kvöld. Hálka og óveður er undir Eyjafjöllum og ekkert ferðaveður.

Hálka og skafrenningur er í kringum Hellu. Víða er snjóþekja, hálka eða jafnvel þæfingsfærð í uppsveitum Árnessýslu.

Á Hellisheiði og í Þrengslum er reiknað með ofanhríð, skafrenningi og fremur litlu skyggni fram á kvöldið. Snarpar vindhviður eru undir Eyjafjöllum. Kl. 20 var vindur 29 m/sek á Steinum undir Eyjafjöllum og mesta hviðan sem mældist þar var 43 m/sek. Vindhviður hafa mest farið upp í 48 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum nú undir kvöld.